Dagskrá 2023

Laugardagur
18. nóvember

Verk í vinnslu: Eden

Litla svið Borgarleikhússins
17:00

Í okkar Eden er lykt af píku og nýslegnu grasi, með hrúgu af hálfbitnum eplum í horninu. Það er eitthvað skrítið við okkar Eden, eitthvað á ská, eitthvað óþægilegt. Adam & Eva eru ekki að leika hlutverkin sín eins og þau hafa alltaf gert. Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Nína Hjálmars kafa hér inn í sköpunarsöguna og taka sér pláss í sjálfum aldingarðinum upprunalega. Eden er hinsegin paradís sem afmiðjar norm samfélagsins og leyfir áhorfendum að finna fyrir hinu erótíska innra með sér

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir (hún/hennar/she/her) er sviðslistakona, sjálfstætt starfandi fræðimaður og aktivisti sem hefur í störfum sínum lagt áherslu á inngildingu og samspil fötlunar og kynverundar. Embla var tilnefnd til Grímunnar 2023 sem dansari ársins fyrir frammistöðu sína í sýningunni Góða ferð inn í gömul sár.

Nína Hjálmars (hún/hán/she/they) er sviðshöfundur, fræðimaður, gagnrýnandi og pródúser. Hún er lektor í sviðslistafræðum og fagstjóri fræða við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands. Rannsóknir Nínu í listsköpun og fræðum eru á vettvangi afnýlenduvæðingar og hinsegin fræða í listum, sem oft staðsetja Ísland og Norðrið í nýlendusamhengi.

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Nína Hjálmarsdóttir

Frítt inn

Aðgengi fyrir hjólastóla

Verk í vinnslu: HERDÍS

Litla svið Borgarleikhússins
17:20

Viktoría Blöndal, höfundur og leikstjóri, Eva Halldóra, höfundur og dramatúrg

Herdís situr í stofufangelsi við Rauðavatn. Hún er kynlífsgúrú, glæpakvendi og fálkaorðuhafi. Á eftir henni eins og blautur hundur er lögreglumaðurinn Guðráður.

Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson og Jakob van Oosterhout.

Eva Halldóra Guðmundsdóttir hefur lokið BA. gráðu frá Listaháskóla Íslands af sviðshöfundabraut. Hún er sviðshöfundur og gagnrýnandi. Viktoría Blöndal er leikstjóri, þáttargerðakona og höfundur.

Frítt inn

Aðgengi fyrir hjólastóla

Verk í vinnslu: CODAPENT - sviðslistaþerapía

Litla svið Borgarleikhússins
17:40

Hrefna Lind Lárusdóttir, Pétur Eggertsson og fleiri

Codapent er hugarfóstur Hrefnu Lindar sem fjallar um nýja lyfleysu sem er á leiðinni á markað og læknar meðvirkni. Hrefna Lind og Pétur Eggertsson ásamt fleirum flytja tillögur að bataferli.

Hrefna Lind Lárusdóttir er sviðslistakona sem starfar á mörkum listgreina, þá aðallega myndlist, tónlistar og hönnunar. Verk hennar takast á við hið persónulega og almenna rými þar sem viðtakandi er virkjaður í ókönnuðu rými. Sjálfsmildi og samfélagslegar umbreytingar eru viðfang og efniviður í verkum hennar. Hrefna er meðlimur hljómsveitarinnar The Post Performance Blues band, annar listrænna stjórnanda Krakkaveldis og Mannyrkjustöð Reykjavíkur.

Pétur Eggertsson er tónskáld sem vinnur í gegnum sjónlistir og gjörninga. Með tónlist sinni varpar Pétur fram spurningum um þá menningu sem umlykur tónlistarflutning og leitar þar að hugmyndafræðilegu sambandi milli tónlistar og samfélags. Pétur gefur jafnframt út raftónlist undir nafninu Hjalti Kaftu, spilar á trommur með hljómsveitinni Skelk í bringu og er annar helmingur teknófiðlutvíeykisins GEIGEN ásamt Gígju Jónsdóttur.

Kór:
Svala Louise Leaman
Margrét Kristín Blöndal
Björk Níelsdóttir
Saga Kjerúlf Sigurðardóttir
Álfrún Helga Örnólfsdóttir
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
Rebecca Lord
Gígja Jónsdóttir
Bergþóra Ægisdóttir
Guðrún Margrét
Ragnheiður Petra

Búningar:
Guðný Hrund Sigurðardóttir

Grafísk hönnun:
Búi Bjarmar Aðalsteinsson

Frítt inn

Aðgengi fyrir hjólastóla

partý með reykjavík dance festival

Iðnó
22:00

Frítt inn

Aðgengi fyrir hjólastóla

Sunnudagur
19. nóvember

S.k.i.l.i.n. – opin rannsókn

Borgarbókasafnið Úlfarsárdal, Miðgarði
9:30–12:30

KVISS BÚMM BANG

Kviss búmm bang eru komnar aftur á stjá eftir afsakið hlé. Í rannsókninni munu þær hleypa þátttakendum inn í fyrstu skrefin á rannsóknarvinnu sinni að nýju autobiografísku verki sem fjallar um arfleið og menningu hjónabandsins og ekki síst algengan fylgifisk þess, skilnað.

Smiðjan er einungis ætluð fólki sem hefur gengið í gegnum skilnað einhverntímann á ævinni.

Þátttakendur eru beðnir um að hafa með sér einn hlut úr fyrra lífi sem "gift".

Framandverkaflokkurinn Kviss búmm bang samanstendur af Evu Björk Kaaber, Evu Rún Snorradóttur og Vilborgu Ólafsdóttur. Fyrsta verk þeirra Eðlileikarnir árið 2009 var rannsókn á hjónabandinu. Þær hafa farið víða á sviðslistahátíðir með verk sín. 

Frítt inn, takmörkuð pláss

Aðgengi fyrir hjólastóla

Nýr viðburður: FYRIR PALESTÍNU Vatn kveikir í mér – opin rannsókn

Borgarbókasafnið Úlfarsárdal, Miðgarði
13:30–16:00

Íris Stefanía Skúladóttir

ATHI! Þessi viðburður mun taka breytingum. Við förum frá efninu um núvitund og unað og tileinkum þessari stund fólki frá Palestínu sem býr á Íslandi. Í ljósi þess að mikið af listafólki frá Palestínu hefur verið afbókað á viðburðum þar sem það átti að fá sviðsljósið og hefur verið hreinlega þaggað niður á meðan fólk sem gefur sig opinberlega út fyrir að styðja Ísreal er það ekki þá viljum við bjóða fram þennan vettvang til þeirra sem treysta sér til. Við bjóðum fólki frá Palestínu sem býr á Íslandi að nýta þennan vettvang til að deila sínum sögum. Formið er hefðbundinn söguhringur og öll eru velkomin sem geta sýnt virðingu og hafa áhuga á að hlusta og læra og deila og mynda tengsl. Við sitjum í hring og við kynnum okkur öll og ef við viljum þá getum við sagt aðeins frá okkur. Síðan gefum við fólki frá Palestínu orðið og hlustum. Það má spyrja spurninga en gætið þess að sýna virðingu. Við erum meðvituð um að þetta er gífurlega viðkvæmt mál og mega þau sem mæta alltaf hætta við að tala, sitja hjá og bara hlusta eða einfaldlega fara. Það er engin pressa á að gera neitt sem þér líður ekki vel með. Við erum eins og er með aðstöðu í Úlfarsárdal en markmiðið er að færa okkur nær miðbænum. Viðburðurinn mun fara fram á ensku. Bestu kveðjur, Íris

Hvað lætur þér líða vel? Hvað kveikir í þér? Hvað veitir þér innblástur?

Í opnu rannsókninni Vatn sem kveikir í mér kannar Íris með gestum hvað það er sem kveikir í okkur svo við getum lært að stíga meira inn í unaðinn í hversdeginum. Með því að vera í betri tengingu við kjarnann okkar (barnið, leikinn, kynveruna, dýrið) þá opnast greiðari leið að sköpunarkraftinum.

Íris Stefanía Skúladóttir er sviðslistakona sem hefur unnið með líkama og líf kvenna í verkum sínum. Hún leggur áherslu á unað, tabú, skömm og þrár. Hún hefur meðal annars safnað og gefið út sjálfsfróunarsögur kvenna og haldið söguhringi þar sem sögur sem tengjast efninu eru sagðar. Gert útvarpsleikhúsverk um eldri konur og rétt þeirra til að vera kynverur, verk um konur sem kjósa að eignast ekki börn og verk um náttúruhneigð og unað í fæðingum.

Frítt inn, takmörkuð pláss

Aðgengi fyrir hjólastóla

efsta hillan – vinnustofa með leikhópnum kriðpleiri

Borgarbókasafnið Úlfarsárdal, Miðgarði
17:00–19:30

Árni Vilhjálmsson, Friðgeir Einarsson og Ragnar Ísleifur Bragason

Hversu lengi getum við horft framhjá vandamálunum? Eða þarf kannski ekki að kalla þau vandamál ef við hugsum ekki um þau?

Þátttakendur vinnustofunnar eru beðnir um að taka með sér 4 krukkur eða sósutúbur sem hafa dagað uppi í ísskápnum. Sameiginlega munum við rannsaka fortíð og uppruna krukknanna, og leitast við að skapa kringumstæður sem miðla sögu þeirra. Í lokin ætlum við að bjóða gestum og gangandi að kynnast krukkunum.

Árni Vilhjálmsson, Friðgeir Einarsson og Ragnar Ísleifur Bragason leiða smiðjuna.

Kriðpleir hefur verið starfandi frá árinu 2012 og vakið mikla athygli með verkum sínum. Kriðpleir fékk nýverið tilnefningu til evrópsku ljósvakaverðlaunanna Prix Europa í flokki leikinna hljóðvarpsverka fyrir verk sitt Sjálfsalinn.

Frítt inn, takmörkuð pláss

Aðgengi fyrir hjólastóla

piparfólkið – í samstarfi við Reykjavík Dance Festival

Kornhlaðan, Bankastræti 2
13:30

DÍÓ

Sviðslistaverkið Piparfólkið fjallar um ótta við orkuskipti og reykvískan langafa sem á sér leynisjálf.

Díó samanstendur af sviðslistakonunum Aðalbjörgu Árnadóttur og Ylfu Ösp Áskelsdóttur. Markmið þeirra er að gefa hversdagsleikanum epískan blæ, og fara örlítið rangt með sagnfræðilegar og persónulegar heimildir. 

Fyrsta verk Díó, Þær spila blak Hallelúja var frumsýnt 26. ágúst 2016 á alþjóðlegu sviðslistahátíðinni Everybody's Spectacular.  Verkið hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlauna, fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins og sem sproti ársins. Verkið var svo valið inn í More More More prógrammið á Ice Hot 2018. 

Höfundar. Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Ylfa Ösp Áskelsdóttir og Guðni Gas (Guðni Eyjólfsson)
Leikstjórn: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir og Ylfa Ösp Áskelsdóttir.   
Leikmynd og búningar: Brynja Björnsdóttir.
Ljósahönnun: Ólafur Ágúst Stefánsson
Tónskáld: Georg Kári Hilmarsson
Aðstoð við dramatúrgíu: Hannes Óli Ágústsson 
Leikkonur: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir og Ylfa Ösp Áskelsdóttir 
Gestastjarna: Ný á hverju sýningarkvöldi.
Framkvæmdastjórn:  Davíð Freyr Þórunnarson 

3.900 kr.

Aðgengi fyrir hjólastóla

Aðeins ein sýning, flutt á ensku